N1 tapaði 11,8 milljörðum í fyrra samkvæmt tilkynningu fyrirtækisins sem mbl.is vitnar til. Þar munar ekki síst um 4,5 milljarða niðurfærslu á viðskiptavild fyrirtæksins. Það er öll viðskiptavildin sem var bókfærð í reikningum félagsins áður.

Félagið, sem áður var í eigu BNT, er nú í eigu kröfuhafa þess en samþykkt var á aðalfundi N1 fyrr í dag að niðurfæra allt hlutafé BNT. Heildartekjur N1 í fyrra námu 45,8 milljörðum króna en þær voru 39,8 milljarðar árið á undan. Hagnaður af reglubundinni starfsemi fyrir fjármagnsliði var rúmlega einn milljarður króna.

Eftir endurskipulagningu á fjárhag félagsins, það er niðurfærslu á hlutafé fyrrum eigenda og afskrift skulda, er eigið fé N1 um 14 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið um 50%, að því er segir í frétt mbl.is.