Tap Northern Rock bankans á fyrri helmingi ársins var meira en greiningaraðilar höfðu spáð fyrir um. Bankinn tapaði 585,4 milljónum punda á tímabilinu (um 92 milljarðar íslenskra króna) en búist var við tapi í kringum 500 milljónir punda.

Bankinn var sem kunnugt er þjóðnýttur í febrúar síðastliðnum eftir áhlaup frá viðskiptavinum (e. bank run). Á fyrri helmingi þessa árs greiddi Northern Rock til baka 9,4 milljarða punda af láni sem hann fékk frá Englandsbanka, og skuldar þeim síðarnefnda nú 17,5 milljarða punda.

Þar sem Northern Rock hefur verið þjóðnýttur hefur hann enga hluthafa en þarfnast samt fjármagns. Því hyggjast stjórnvöld leggja til fé í hlutafjáraukningu, allt að 3 milljarða punda að sögn Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta. Hann gat þó ekki gefið upp nákvæma upphæð, enda liggur hún ekki fyrir.

Vaxandi fjöldi þeirra sem tekið hafa íbúðalán hjá Northern Rock lenda í vandræðum með að greiða þau lán, en í júní 2007 var fjöldi þeirra sem ekki gat greitt af lánunum 0,38% af lántakendunum en nú stendur hlutfallið í 1,21%.

Northern Rock tilkynnti í síðustu viku að bankinn hyggðist fækka starfsmönnum um 1.300.