Tap Nýherja eftir skatta og fjármagnsliði nam 120,9 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi þessa árs, samanborið við tap upp á 261,8 milljón á sama tíma í fyrra.

Hins vegar hagnaðist félagið um tæpar 107,4 milljónir króna fyrir skatta og fjármagnsliði (EBIDTA), samanborið við hagnað upp á tæpar 125 milljónir króna á sama tíma í fyrra.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá Nýherja í dag. Tap félagsins eftir skatta og fjármagnsliði fyrstu níu mánuði ársins nemur tæpu 984,4 milljónum króna, samanborið við 694 milljóna króna tap á sama tíma í fyrra.

Salan dregst saman um 5,3% milli ára

Sala á vöru og þjónustu nam 10.339 milljónum króna fyrstu 9 mánuði ársins 2009, samanborið við 10.918 milljónir á sama tímabili í fyrra og hefur salan því dregist saman um 5,3% á milli ára. Tekjur starfseminnar á Íslandi námu 6.960 milljónum króna, en 3.379 milljónum króna hjá erlendum dótturfélögum.

Laun og launatengd gjöld hækka lítillega á milli ára og námu 4.520 milljónum króna en voru 4.345 milljónir fyrir sama tímabil árið áður. Í uppgjörstilkynningunni kemur fram að vegna gengisbreytinga hafa laun erlendra starfsmanna hækkað um 46% í íslenskum krónum fyrstu níu mánuði ársins 2009 miðað við sama tímabil árið áður, eða um 648 milljónir króna. Verulega hefur fækkað í stöðugildum hjá félaginu því meðalfjöldi stöðugilda fyrstu 9 mánuði ársins 2009 var 598 en var 714 fyrir sama tímabil árið áður.

Rekstrarkostnaður var um 1.647 milljónir króna en var 1.315 milljónir yfir sama tímabil í fyrra. Hrein fjármagnsgjöld voru 504 milljónir króna í samanburði við 1.058 milljónir á sama tímabili árið 2008.

Heildareignir í lok tímabilsins hafa aukist lítillega og voru 10.058 milljónir króna, samanborið við 9.952 milljónir í lok ársins 2008. Langtímaskuldir hafa lækkað frá árslokum úr 2.669 milljónum króna í 2.379 milljónir. Skammtímaskuldir hafa hækkað frá árslokum úr 5.319 milljónum króna í 5.895 milljónir króna. Eigið fé í lok september 2009 var 1.785 milljónir króna og er eiginfjárhlutfall nú 17,8% en var 19,7% um síðustu áramót.

Lægri rekstrarkostnaður mun skila sér, segir forstjórinn – stefnt að útgáfu að nýju hlutafé

„Nýherji hefur lagt þunga áherslu á að lækka rekstarkostnað á árinu sem hefur skilað sér í bættri afkomu eftir því sem liðið hefur á árið og mun áframhaldandi aðhald styrkja rekstrarafkomu í fjórða ársfjórðungi,“ segir Þórður Sverrisson, forstjóri Nýherja í tilkynningunni.

Þórður segir að rekstur Applicon félaga í Danmörku og Svíþjóð sé stöðugur og horfur viðunandi þrátt fyrir samdrátt í efnahagslífi landanna, en um þriðjungur tekna samstæðunnar kemur frá starfsemi erlendra dótturfélaga.

„Markaðsstaða fyrir hugbúnaðarþjónustu og ráðgjöf á Íslandi hefur kallað á að kannað sé með tækifæri erlendis,“ segir Þórður.

„Applicon ehf. og TM Software [...]hafa brugðist við miklum samdrætti innanlands með því að leita markvisst eftir verkefnum erlendis og er nú svo komið að yfir þriðjungur tekna þessara félaga kemur af verkefnum fyrir erlenda aðila. Nýherjasamstæðan hefur markað þá stefnu að fjölga enn frekar verkefnum erlendis fyrir ráðgjafa og tæknimenn samstæðunnar, meðal annars með því að nýta góða markaðsstöðu dótturfélaga í Danmörku og Svíþjóð.“

Þá kemur loks fram að stjórn félagsins hafi ákveðið að hefja undirbúning að útgáfu og sölu á nýju hlutafé til að styrkja fjárhagsstöðu Nýherja.