Nýherji tapaði 1.608 milljónum króna á síðasta ári. Það gerir að engu tæplega 111 milljóna króna hagnað félagsins árið 2012. Uppgjör Nýherja markast af hreinsunarstarfsemi ef svo má að orði komast. Þrátt fyrir að innlenda starfsemi fyrirtækisins gangi vel setur viðvarandi tap norræna hugbúnaðarfyrirtækisins Applicon sem fyrr strik í reikninginn hjá Nýherja. Viðskiptavild félagsins hefur af þeim sökum við færð niður um 1,1 milljarð króna og fyrirtækið sett í söluferli. Þetta er annað norræna fyrirtækið í eigu Nýherja sem er sett í söluferli. Hitt er Dansupport.

Í uppgjöri Nýherja kemur fram að rekstrarhagnaður (EBITDA) nam 230 milljónum króna samanborið við 481 milljón árið 2012. Ef einskiptikostnaður er undanskilin nam rekstrarhagnaðurinn 371 milljón króna. Handbært fé frá rekstri nam 561 milljón króna samanborið við 237 milljónir árið 2012 og var afkoman almennt hjá innlendum dótturfélögum.

Í uppgjörstilkynningu Nýherja segir að auk viðvarandi taps hafi lítil sem engin samlegð verið á milli reksturs Nýherja í Danmörku og á Íslandi. Haft er eftir Finni Oddssyni, sem tók við sem forstjóri Nýherja í fyrra, að nú sé ætlunin að einfalda starfsemi Nýherja, bæta afkomuna og styrkja stöðu félagsins.

"Þetta uppgjör markar ákveðin þáttaskil hjá samstæðu Nýherja.  Við horfum nú til tækifæranna sem felast í því að nýta okkur sterka stöðu á markaði og mjög samkeppnishæft vöru- og lausnaframboð til að þjónusta stóran hóp öflugra viðskiptavina.  Að sama skapi væntum við áframhaldandi vaxtar erlendra tekna vegna sölu hugbúnaðarlausna sem þróaðar eru af dótturfélögum Nýherja, einkum TM Software," segir Finnur.