Tap Flögu Group á fyrsta ársfjórðungi 2006 nam 877 þúsund bandaríkjadala (63 milljónir króna) en tapið nam 1,1 millljón bandaríkjadala (79 milljónir króna) á sama tímabili árið 2005.

Rekstrartap (EBIT) nam 715 þúsund bandaríkjadala (51,4 milljónir króna) á fyrsta ársfjórðungi 2006 en á sama tímabili fyrir ári nam rekstrartapið 977 þúsund bandaríkjadala (70 milljónir króna)

Tekjur félagsins á fyrsta ársfjórðungi námu 7,4 milljónum bandaríkjadala (532 milljónir króna), sem er 10% samdráttur frá fyrsta fjórðungi 2005.

Í tilkynningu segir að samdráttinn megi aðallega rekja til skipulagsbreytinga Medcare í tengslum við vöruhúsaþjónustu og dreifingu sem hafði áhrif á tekjur félagsins utan Bandaríkjanna. Áætlað er að viðsnúningur muni nást á öðrum og þriðja fjórðungi.

Heildareignir í lok fyrsta ársfjórðungs námu 61,7 milljón bandaríkjadala (4,4 milljarðar króna), sem er óbreytt staða frá ársbyrjun.

Eigið fé nam 40 milljónum bandaríkjadala (2,87 milljarðar króna) þann 31. mars, 2006 samanborið við 41 milljón bandaríkjadala (2,95 milljarðar króna) í ársbyrjun. Eiginfjárhlutfallið var 65% en var 66% í árslok 2005.

Reiknuð skattinneign er eignfærð og nam 3,6 milljónum bandaríkjadala í lok fyrsta ársfjórðungs 2006.