Tap Olíufélagsins ehf. á fyrstu sex mánuðum ársins nam 62,4 milljónum króna, en á sama tímabili í fyrra var hagnaður fyrirtækisins 223,9 milljónir króna, segir í tillkynningu til Kauphallarinnar.

Tapið má rekja til óhagstæðrar gengisþróunar á tímabilinu og aukins fjármagnskostnaðar, segir í tilkynningunni.

Hagnaður Olíufélagsins ehf. og dótturfélaga á fyrri helmingi árs fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 946,7 milljónum króna.

Veltufé frá rekstri nam 559,3 milljónum króna en var 490,3 milljónir króna fyrir sama tímabil á fyrra ári. Í lok júní 2006 var eiginfjárhlutfall samstæðunnar 26,5%.

Rekstrartekjur samstæðunnar nema 11.737 milljónum króna samanborið við 9.958 milljónir króna á árinu 2005. Hreinar rekstrartekjur hækka um 381 milljónir króna frá fyrra ári og nema 2.871 milljónum króna.

Rekstargjöld án afskrifta og leigugjalda nema 1.728 milljónum króna og eru 111 milljónum króna hærri en fyrir sama tímabil á fyrra ári. Fjármagnsliðir eru neikvæðir um 894 milljónir króna á tímabilinu en voru jákvæðir um tvær milljónir króna á fyrra ári.

Rekstur félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins er í samræmi við rekstraráætlanir að undanskildum áhrifum sem þróun gengismála hefur haft í för með sér, sem þó hefur gengið til baka að stórum hluta í dag. Gert er ráð fyrir að afkoma félagsins verði í samræmi við rekstraráætlanir seinni hluta ársins ef ekki koma til neinar meiriháttar breytingar á ytri aðstæðum, segir í tilkynningunni.