Það skiptir miklu máli að grípa til aðgerða sem fyrst, að sögn Bjarna Bjarnasonar, forstjóra Orkuveitu Reykjavikur (OR). Minni framleiðsla Hellisheiðarvirkjunarinnar gæti kostað OR (OR) 163 milljónir króna á hverju ári auk 2,3% árlegrar rýrnunar orkuvinnslusvæðisins að meðaltali. Tapið eykst þessu samkvæmt á hverju ári og gæti verið ef ekkert er að gert komið í hálfan milljarð króna árið 2015. Miðað er við að öll framleiðsla seljist og meðalheildsöluverð hjá Landsvirkjun.

Gæti dregið úr framleiðslu á þessu ári

Fram kom í Fréttablaðinu í morgun um OR að bróðurpartur vinnslu Hellisheiðarvirkjunar einskorðist við þröngt svæði og lítið virðist vera að finna utan þess. Vinnslusvæði virkjunarinnar er því minna og ekki eins orkuríkt og talið var.Þá kemur fram á forsíðu Fréttablaðsins að undanfarið hafi niðurrennslisholur einnig farið að taka við minna vatni en áður og verði framhald þar á, gæti þurft að draga úr framleiðslu strax á þessu ári. Sá samdráttur bætist við þann vanda sem fyrr var lýst.

Samkvæmt kynningu OR til hagsmunaðila þyrfti mögulega að bora nýja holu árlega til að halda óbreyttum afköstum. Kostnaður við borun á slíkri holu er 400-500 milljónir króna. Við þessa útreikninga er miðað  að söluverð á kílóvattstund sé um 25,7 Bandaríkjadollarar, sem var meðaltal til stórnotenda árið 2011. Einnig er gert ráð fyrir að öll orkan sé seld en ekki er víst að OR hafi selt alla orkuframleiðsluna í  Hellisheiðavirkjun og því sé ekki um raunverulegt tap að ræða.

Álagið of mikið

Bjarni segir í samtali við vb.is að miðað við eðlileg og jöfn afköst frambúðar skili vélar Hellisheiðarvirkjunar á bilinu 270 til 280 MW en ekki 303 MW eins og rætt hafi verið um. Það er meira álag á virkjunina en vélarnar voru hannaðar fyrir. Af þessum sökum er tekjutapið minna en svartsýnustu menn telji það vera.

„Ég get ekki sagt að við töpum þessu enda skipta aðstæður máli,“ segir Bjarni í samtali við vb.is.