Íslandspóstur tapaði 118 milljónum króna í fyrra. Í tilkynningu var haft eftir Ingimundi Sigurpálssyni, forstjóra Íslandspósts, að slæma afkomu megi rekja til fækkunar bréfa í einkarétti á sama tíma og dreifinet póstþjónustunnar hefur stækkað. Afkoman er hins vegar mjög mismunandi milli mismunandi starfsþátta Póstsins.

Segja einkaréttinn rekinn á sléttu

Skipta má starfsemi Íslandspósts í þrennt. Í fyrsta lagi hefur fyrirtækið einkarétt á dreifingu pósts sem er léttari en 50 grömm. Önnur starfsemi Íslandspósts er í samkeppni við önnur fyrirtæki. Hluti samkeppnisrekstrarins fellur undir svokallaða alþjónustukvöð á meðan hluti gerir það ekki. Alþjónustukvöðin felur það í sér að Pósturinn verður að veita þjónustuna á svæðum þar sem hún myndi ekki borga sig, svokölluðum óvirkum markaðssvæðum.

Sá hluti af rekstri Póstsins sem fyrirtækið hefur einkarétt á var rekinn með 1,2 milljón króna tapi í fyrra, samkvæmt greiningu Íslandspósts sem hefur ekki verið staðfest af Póst- og fjarskiptastofnun. Sá hluti samkeppnisrekstursins sem ekki hvílir alþjónustukvöð á var rekinn með 114 milljón króna hagnaði samkvæmt sömu greiningu.

Taprekstur Íslandspósts má þannig að nær öllu leyti rekja til þess hluta samkeppnisreksturs sem alþjónustukvöð hvílir á. Þessi starfsþáttur fyrirtækisins var rekinn með 551 milljón króna tapi í fyrra samkvæmt greiningu Íslandspósts.

Breytingarnar duga klárlega ekki

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Ingimundur að afkomu af einkaréttarhluta reksturs Íslandspósts hafi verið ætlað að borga niður taprekstur á þeim hluta samkeppnisreksturs fyrirtækisins sem alþjónustukvöð liggur á. Tapreksturinn skýrist af því að einkarétturinn skili ekki nægum hagnaði til að standa undir þeim samkeppnisrekstri fyrirtækisins sem alþjónustukvöð liggur á og er innan óvirkra markaðssvæða.

Fyrir áramót var reglugerð um póstburð í dreifbýli breytt og er áætlað að breytingarnar muni spara Íslandspósti nokkra fjármuni. Ingimundur segir þó að sú breyting muni klárlega ekki duga til að rétta af reksturinn. Spurður til hvaða aðgerða Pósturinn getur þá gripið til að rétta af reksturinn segir hann að ríkið ákveði hvernig alþjónustan skuli vera.

„Málið snýst um það að ríkið geri breytingar á kröfum um alþjónustu á Íslandi þannig að hún standi undir sér, eða að hún komi með fjármuni í það í gegnum fjárlög eins og gerist víða í öðrum löndum,“ segir Ingimundur.

Tapið mun vaxa að óbreyttu

Hann segir aðspurður að taprekstur sé óhjákvæmilegur meðan staðan er eins og hún er og að tapið muni fara vaxandi nema gripið sé til aðgerða.

„Nema við getum fengið nægar tekjur af annarri starfsemi til að greiða það niður. Það er það sem við höfum verið að horfa til þegar við erum að stækka á öðrum sviðum heldur en innan þessarar alþjónustu, að nýta hagnaðinn af því til að borga þetta niður. Meðal annars fer þessi hagnaður af samkeppni utan alþjónustu í það. En hann er bara of lítill.“

Ingimundur segir að rekstraráætlun þessa árs sé lögð upp með 150 milljón króna hagnaði, eins og í fyrra. Það sé bundið ákveðnum forsendum um fækkun dreifingardaga í sveitum. Aftur á móti sé útlit fyrir að launahækkanir verði umfram áætlun.

Talsvert önnur mynd

Í viðtali við Viðskiptablaðið í október sagði Ingimundur að einkaréttarhluti Íslandspósts hafi verið rekinn með 100 milljón króna tapi árið 2014, á meðan sá hluti samkeppnisrekstrarins sem er innan alþjónustu hafi verið rekinn með 20 milljón króna tapi.

Þetta er talsvert önnur mynd en er dregin upp í ársskýrslu Póstsins, en þar kemur fram að einkaréttarhlutinn hafi verið rekinn með hagnaði árið 2014 á meðan samkeppnisrekstur innan alþjónustu hafi verið rekinn með yfir 500 milljón króna tapi.

Ingimundur segist í samtali við Viðskiptablaðið ekki kunna skýringar á þessu misræmi í fljótu bragði. Ef til vill hafi fyrri tölur verið bráðabirgðatölur.