*

fimmtudagur, 19. september 2019
Innlent 19. febrúar 2019 08:41

Tap Reita jafnt og hagnaðurinn fyrir ári

Reitir töpuðu 1,4 milljarði á fjórða ársfjórðungi en hagnaður fyrir árið fór úr 5,7 milljörðum 2017 niður í 110 milljónir 2018.

Ritstjórn
Guðjón Auðunsson er forstjóri Reita
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Reita fór úr 1.395 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi ársins 2017 í 1.416 milljóna tap fyrir sama tímabil á síðasta ári. Rekstrarhagnaður félagsins, það er leigutekjur að frádregnum rekstrarkostnaði eignanna og stjórnunarkostnaði nam 2.029 milljónum fyrir matsbreytingu eigna síðustu þrjá mánuði síðasta árs.

En með matsbreytingu eigna var rekstrarhagnaðurinn neikvæður um 1.834 milljónir króna fyrir tímabilið. Á sama tíma ári fyrr nam fyrrnefnda talan, þá fyrir matsbreytingu, 1.881 milljónum króna, en matsbreytingin bætti þá við 952 milljónum og var þá rekstrarhagnaðurinn 2.833 milljónir króna.

Tap á öðrum og fjórða ársfjórðungi

Fyrir árið í heild var einnig tap á öðrum ársfjórðungi, 877 milljónir króna, en hagnaður bæði fyrsta, 1.198 milljónir og þriðja, 1.205 milljónir, í heildina 110 milljóna hagnaður. Það er mikil breyting frá árinu 2017 þegar umtalsverður hagnaður, yfir 1,2 milljarða í öllum tilfellum, var af hverjum ársfjórðungi og heildarhagnaðurinn nam 5.671 milljónum króna.

Leigutekjur félagsins jukust þó um 5,9% á milli ára, það er úr tæplega 10,8 milljörðum í rúmlega 11,4 milljarða, meðan rekstrarkostnaður fjárfestingareigna jókst 11% á milli ára, úr 2,9 milljarða í 3,2 milljarða.

Með stjórnunarkostnaði sem jókst um 3%, eða 18 milljónir á milli ára, og nam 620 milljónum á því síðasta, var rekstrarhagnaður félagsins fyrir matsbreytingu eigna rétt um 300 milljónum meiri á milli ára. Fór hann úr 7.301 milljón í 7.606 milljónir.

Neikvæð matsbreyting helmingaði rekstrarhagnaðinn

En eftir matsbreytingu fjárfestingareigna sem var jákvæð um tæpa 3,9 milljarða 2017 en nækvæð um rúma 3,1 milljarða í fyrra lækkaði rekstrarhagnaður félagsins milli ára úr tæplega 11,2 milljörðum í tæpa 4,5 milljarða. Því fór heildarhagnaður ársins úr tæplega 5,7 milljörðum árið 2017 í 110 milljónir árið 2018, sem þýðir að hagnaður á hlut fór úr 7,9 krónum í 0,2 krónur.

Á árinu fóru skuldir félagsins úr tæplega 91,3 milljörðum í 96,8 milljarða, meðan eignir þess jukust úr 140,6 milljörðum í 143,7 milljarða, svo eigið fé félagsins dróst saman úr 49,3 milljörðum í 46,9 milljarða milli ára.

Eiginfjárhlutfall félagsins lækkaði á milli áranna úr 35,1% í 32,6%. Fjármagnsgjöld félagsins námu 5.960 milljónum króna á árinu 2018, samanborið við 4.372 milljónir króna árið áður, en meðalkjör verðtryggðra skulda voru 3,9% í lok ársins.

Fór virði fjárfestingareigna félagsins úr 135 milljörðum í 138,5 milljarða á milli áranna, meðan vaxtaberandi skuldir fóru úr 77,5 milljörðum í 84,3 milljarða.

Skattheimtan eykst en horfur í hagkerfinu dala

Guðjón Auðunsson forstjóri Reita segir reksturinn hafa verið í samræmi við áætlanir. ,,Rekstrarhagnaður ársins að fjárhæð 7.606 milljónir króna er sá mesti sem félagið hefur skilað frá stofnun. Leigutekjur vaxa um 6% milli ára. Nýtingarhlutfall er 97% á árinu og eykst um tæpt 1% milli ára. Gæði leigutekna almennt endurspegla góða stöðu í innheimtu,“  segir Guðjón í tilkynningu

,,Á síðustu árum hefur hlutdeild fasteignagjalda í rekstrarkostnaði félagsins farið mjög vaxandi og mun það hlutfall enn hækka á þessu ári . Fasteignagjöld sem hlutfall af heildarleigutekjum félagsins hafa hækkað  úr 14% fyrir árið 2014 og stefnir í rúm 19%    á  árinu 2019. Er þessi breyting til marks um mjög aukna skattheimtu sveitarfélaga af atvinnuhúsnæði, sem verður sífellt meira íþyngjandi fyrir fasteignaeigendur og rekstraraðila.

Matslækkun fjárfestingaeigna að fjárhæð 3.132 m.kr. litar uppgjör Reita fyrir árið 2018. Meginskýring lækkunarinnar liggur annars vegar í fram kominni hækkun fasteignagjalda. Einnig er það mat stjórnenda og ráðgjafa félagsins að horfur á hægari hagvexti valdi því að markaðsverð útleigu atvinnuhúsnæðis muni til skemmri tíma ekki fylgja að fullu þróun verðlags. Fasteignafélag með atvinnuhúsnæði í öllum greinum atvinnulífsins er á hverjum tíma spegilmynd viðhorfa og væntinga rekstraraðila. Breytingar á horfum í efnahagsmálum hljóta að endurspeglast í mati á markaðsverði eigna samkvæmt þeim aðferðum og stöðlum sem beita á við slíkt mat. Meðalvirði fermetra í eignasafni Reita í lok árs 2018 eru um 300 þúsund kr., sem félagið telur að sé varfærið mat.

Framtíðarhorfur um þróun markaðsleigu hafa óveruleg áhrif á rekstrarhorfur félagsins fyrir árið 2019. Rekstraráætlun ársins miðar við að rekstrahagnaður verði á bilinu 7.600 - 7.750 m.kr. samanborið við 7.606 m.kr. árið 2018. Eins og undanfarin ár mega hluthafar vænta þess að að lágmarki þriðjungi rekstrarhagnaðar verði skilað til þeirra í formi endurkaupa hlutabréfa og með greiðslu arðs.

Leiðin til framtíðar markast af langtímahugsun sem helgast af vel ígrunduðum ákvörðunum. Þar fer stöðugleiki í rekstri, arðsemi og ávinningur hluthafa og viðskiptavina framar öðrum markmiðum. Unnið er að framgangi spennandi þróunarverkefna á Kringlureit, Orkuhússreit, á Blikastöðum og á öðrum reitum innan eignasafns félagsins. Þá stendur yfir áhugaverð og spennandi vegferð á uppbyggingu stafrænnar Kringlu.“