Tap á rekstri tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu í ár verður 302 milljónir króna, gangi áætlanir eftir. Um verulegan rekstrarbata er að ræða frá fyrra ári, þegar tapið var 584 milljónir. Þetta sést í uppfærðri rekstraráætlun Hörpu og rauntölum fyrstu sjö mánaða ársins. Fréttablaðið vísar í rekstraráætlunina í dag.

Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu, segir við blaðið að hafa beri í huga að eigendur Hörpu, ríki og borg, leggi rekstrinum til 160 milljónir á þessu ári. Sá háttur verður hafður á næstu þrjú árin á meðan húsið er að festa sig í sessi, eins og ákveðið var þegar rekstur hússins var endurskipulagður í fyrra.

„Þetta þýðir samt að reksturinn á árinu batnar um 120 milljónir um það bil, sem verður að teljast ásættanlegt á einu ári. En þetta er auðvitað áætlun og við erum sátt ef okkur tekst að bæta okkur um 100 milljónir á einu ári,“ segir Halldór.

Rekstrarbatann segir Halldór skýrast af því að veruleg veltuaukning hafi orðið á ráðstefnu-sviði Hörpu. „Tækifæri í ráðstefnuhaldi eru gríðarleg og á þessu ári er aukningin hjá ráðstefnusviðinu um 40 prósent,“ segir hann.