Tap varð á rekstri Icelandair Group á fyrstu þremur mánuðum ársins og nam það 13,2 milljónum dala, andvirði um 1,6 milljarða króna. Á sama tíma í fyrra var 9,1 milljóna tap á rekstri fyrirtæksins. Rekstrartekjur námu alls 157,7 milljónum á tímabilinu, sem er 20,7% aukning frá sama tíma í fyrra. Rekstrarkostnaður jókst hins vegar í takt við þetta, eða um 21,5% og nam 160,7 milljónum dala.

Eignir námu í lok mars 780,3 milljónum dala, skuldir námu 538,9 milljónum og eigið fé nam 241,3 milljónum dala. Handbært fé frá rekstri var 86,1 milljón dala og eiginfjárhlutfall 31%.

Í tilkynningu frá félaginu er haft eftir Björgólfi Jóhannssyni , forstjóra Icelandair Group, að afkoma félagsins á fyrsta ársfjórðungi hafi verið betri en áætlanir fyrirtækisins gerðu ráð fyrir. Farþegum hafi fjölgað bæði í millilandaflugi og innanlandsflugi.

Björgólfur segir að í ársbyrjun hafi verið gert ráð fyrir 90-98 milljóna dala EBITDA-hagnaði á árinu. Miðað við uppfærðar forsendur er nú gert ráð fyrir því að EBITDA-hagnaður muni nema 100-105 milljónum dala.