Heildartap MP banka á síðasta ári var 541 milljón króna fyrir skatta og 484 milljónir eftir tekjuskatt og sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki. Viðsnúningur varð á afkomu bankans fyrr en áætlanir stjórenda gerðu ráð fyrir, að því er segir í tilkynningu frá bankanum. Tap á fyrri hluta árs var 681 milljón fyrir skatta en hagnaður var á rekstri á síðari hluta árs um 140 milljónir króna.

Í tilkynningunni kemur fram að á þriðja ársfjórðungi nam tapið 166 milljónum króna. Hagnaður á fjórða ársfjórðungi nam 306 milljónum. „Gert var ráð fyrir tapi út árið 2011 í rekstraráætlun, með batnandi afkomu jafnt og þétt á meðan starfsemi bankans næði fullum afköstum. Niðurstaðan er verulega umfram áætlanir,“ segir í tilkynningunni.

Lánasafn bankans óx um 76% frá júnílokum og til ársloka. Útlán voru þá 13,3 milljarðar króna. Hreinar vaxtatekjur jukust frá því að vera neikvæðar um 45 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi í að vera jákvæðar um 323 milljónir á síðasta ársfjórðungi 2011. Þá varð veruleg aukning á þóknanatekjum. Þær voru 72 milljónir á öðrum ársfjórðungi en 563 milljónir á fjórða ársfjórðungi.

„MP banki er vel fjármagnaður. Innlán námu alls 36,6 milljörðum króna við lok ársins 2011. Eigið fé bankans er 5,1 milljarðar og eiginfjárhlutfall bankans var 19,2% við árslok. Samkvæmt lögum skal hlutfallið vera að lágmarki 8% og er því vel yfir lögbundnum mörkum,“ segir í tilkynningu bankans. Einnig kemur fram að bankinn hefur sterka lausafjárstöðu. Fjármögnunarþekja (NFSR) er 274$ og lausafjárþekja (LCR) yfir 1000%. Hvoru tveggja er vel umfram Bsell III viðmið, sem gera ráð fyrir 100%.

MP banki tók yfir rekstur þriggja félaga á árinu. Bankinn keypti Alfa verðbréf og Júpíter rekstrarfélag auk þess sem hann tók yfir fyrirtækjaráðgjöf Sögu fjárfestingarbanka. „Bankinn styrkti uppbyggingu lífeyrissjóðareksturs bankans í Litháen, MP Pension Funds Baltic, en dró sig jafnframt út úr annarri starfsemi í Litháen,“ segir bankinn.

“Við erum mjög ánægð með þann árangur sem hefur náðst hingað til. Við erum að þróa viðskiptalíkan bankans og styrkja innviðina til að ná hámarksárangri. Við vinnum þétt við hlið viðskiptavina okkar og styðjum þá í starfi við að ná markmiðum sínum. Lánasafn bankans hefur vaxið jafnt og þétt. Vöxturinn er í takt við áætlanir okkar og áherslu á að styðja við lítil og meðalstór fyrirtæki í endurreisn atvinnulífsins á Íslandi. Verkefni okkar hafa nú þegar skilað miklum ávinningi og við erum afar ánægð með hversu vel viðskiptavinum og bankanum sjálfum hefur farnast. Umhverfið er áfram krefjandi og þróun efnahagslífsins er helsta áhyggjuefni okkar. Engu að síður er vöxtur á öllum sviðum starfseminnar og við bjóðum nýja og verðmæta viðskiptavini velkomna á hverjum degi,“ - segir Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka í tilkynningunni.

Ársreikningur MP banka .