Rekstraruppgjör Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið janúar til mars sl. var lagt fram í borgarráði í dag. Niðurstaðan var ríflega hálfum milljarði króna lakari en áætlanir reiknuðu með eða neikvæð um 343 milljónir á meðan áætlunin hljóðaði upp á 165 milljón króna afgang.

Samkvæmt tilkynningu frá borginn skýrist lakari niðurstaða aðallega af lægri skatttekjum sem reyndust 22,8 milljarðar króna en áætlun hafði gert ráð fyrir 23,7 milljörðum. Lækkun skatttekna í fjórðungnum er að stórum hluta vegna síðbúinna skila á staðgreiðslu útsvars, að því fram kemur í tilkynningunni.

Samkvæmt árshlutareikningi drógust rekstrartekjur borgarinnar saman um rúman milljarð króna á fyrsta ársfjórðungi þessar árs miðað við sama tímabil 2018. Skatttekjur jukust þó milli tímabilanna og voru 22,8 milljarðar króna samanborið við 21,2 milljarða króna fyrsta ársfjórðungs 2018. Aðrar tekjur borgarinnar (aðrar en skattar og framlagi úr Jöfnunarsjóð) drógust hins vegar mikið saman milli ára, en þær námu 7,1 milljörðum króna árið 2018 en voru 4,4 milljarðar fyrstu þrjá mánuðina í ár, sem jafngildir nær 40% samdrætti. Munar þar mestu um tekjur af sölu eigna sem námu ríflega 3,1 milljörðum fyrstu þrjá mánuði ársins 2018 en voru eingögnu 644 milljónum króna á sama tímabili núna í ár.

Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var neikvæð um 168 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu upp á 734 milljón krónur þannig að niðurstaðan var 902 milljónum undir áætlun.