Ríkisútvarpið tapaði 10 milljónum króna á tímabilinu frá 1. september 2012 til 28. febrúar í ár. Á sama tímabili í fyrra var 9 milljóna króna hagnaður á rekstri fyrirtækisins.

Rekstrartekjur RÚV jukust um 23,7 milljónir króna á milli ára, en rekstrargjöld jukust um 36,6 milljónir milli ára. Rekstrarhagnaður lækkaði því úr 175,5 milljónum króna í 162,6 milljónir.

Fjármunatekjur minnkuðu um níu milljónir milli ára, en á móti kemur að fjágmagnsgjöld minnkuðu um rúmar tíu milljónir. Neikvæður gengismunur jókst hins vegar um einar tólf milljónir króna. Tap fyrir tekjuskatt nam 12,5 milljónum króna í ár en áhrif tekjuskatts voru jákvæð um 2,5 milljónir.

Eignir RÚV í lok tímabilsins námu 5,8 milljörðum króna, en voru 5,6 milljarðar ári fyrr. Skuldir hækkuðu úr 4,9 milljörðum í 5,1 milljarð og eigið fé lækkaði úr 651,4 milljónum í 641,4 milljónir.

Í árshlutareikningi RÚV kemur fram að heildarlaun og þóknanir til helstu stjórnenda jukust úr 57,8 milljónum króna í 74,6 milljónir, en hluti af þessari tölu er einskiptiskostnaður vegna starfsloka 11,4 milljónir. Útvarpsstjóri, Páll Magnússon fékk 7,1 milljón króna í laun á tímabilinu, en fékk 6,9 milljónir á sama tíma ári fyrr.