*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 29. apríl 2021 16:11

Tap á Íslandi en hagnaður í Færeyjum

Um 77 milljóna króna rekstrartap var af starfsemi Skeljungs á Íslandi en tekjur hérlendis drógust saman um 10,3%.

Ritstjórn
Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs
Aðsend mynd

Hagnaður Skeljungs eftir skatta nam 170 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi sem er um 11 milljónum hærra en á sama tíma í fyrra. Hagnaðinn má rekja til afkomu dótturfélags Skeljungs í Færeyjum en starfsemin á Íslandi skilaði rekstrartapi á fjórðungnum. Arðsemi eigin fjár samstæðunnar, á ársgrundvelli, var 7,1% á samanborið við 6,7% árið áður. Þetta kemur fram í árshlutareikningi Skeljungs.

Sala olíufyrirtækisins dróst saman um 4% milli ára og nam 10,5 milljörðum króna á fjórðungnum. Framlegðin hækkaði hins vegar lítillega milli ára og nam. Án gengismunar lækkaði framlegðin hins vegar um 68 milljónir króna að því er kemur fram í samantekt félagsins um árshlutauppgjörið.  

Tekjur Skeljungs á Íslandi lækkuðu um 10,3% milli ára og námu 6,4 milljörðum króna. Starfsemin á Íslandi skilaði 77 milljóna króna rekstrartapi (EBIT) á fjórðungnum. 

„Afkoma fyrsta ársfjórðungs litast af áhrifum heimsfaraldursins eins og undanfarnir ársfjórðungar hafa gert. Undir lok fyrsta ársfjórðungs 2021 var liðið eitt ár frá því samkomutakmarkanir og ferðatakmarkanir gerðu vart við sig með neikvæðum áhrif á rekstur samstæðunnar,“ segir Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs. 

Starfsemin í Færeyjum, í gegnum dótturfélagið P/F Magn, skilaði hins vegar 415 milljóna króna rekstrarhagnaði á fyrstu þremur mánuðum ársins. Tekjur P/F Magn jukust um 12% og námu 4,3 milljörðum króna. 

Sjá einnig: Skeljungur íhugar sölu á P/F Magn

„Það hefur átt sér stað kröftug viðspyrna í færeysku efnahagslífi sem við sjáum glöggt á afkomu okkar þar og horfur fyrir reksturinn á Íslandi eru góðar að því gefnu að áætlanir stjórnvalda í bóluefnamálum og opnun landsins gangi eftir,“ er haft eftir Árna Pétri. 

Hann segir einnig að Skeljungur hafi gripið til hagræðingaraðgerða sem hafi í för með sér 100 milljóna króna einskiptisáhrif á fyrsta fjórðungi ársins en segir að aðgerðirnar munu skila sér í lækkun rekstrarkostnaður á komandi ársfjórðungum. Rekstrarkostnaður samstæðunnar lækkaði um 10% að teknu tilliti til einskiptiskostnaðar. 

„Við höldum áfram að vinna með áherslur okkar sem við höfum sagt frá áður þ.e. að hagræða í rekstri, einfalda skipulag, skerpa á tekjueiningum og að nýta tækifæri til sóknar,“ segir Árni Pétur.

Eigið fé Skeljungs lækkaði um 282 milljónir króna frá áramótum og nam 9,6 milljörðum í lok mars síðastliðins. Skuldir félagsins hækkuðu um 1,4 milljarða milli ára og námu rúmum 17 milljörðum króna í lok fjórðungsins. Eiginfjárhlutfall Skeljungs lækkaði því úr 38,9% í 36,2% á fjórðungnum. 

Stofna félag utan um birgðastöðina í Örfirisey

Stjórn Skeljungs samþykkti á stjórnarfundi í dag að stofna félag utan um birgðastöð félagsins við Örfirisey, m.a. með það að markmiði að skerpa línur í rekstri félagsins á Íslandi. Rekstrargrunnur félagsins mun m.a. byggjast á gegnumstreymisgjaldi eldsneytis og leigutekjum að því er kemur fram í tillkynningu Skeljungs..

Skeljungur tilkynnti einnig að félagið ætli að fækka kynningarfundum fyrir uppgjör félagsins og mun því ekki halda kynningarfundi fyrir fyrsta og þriðja ársfjórðung 2021.

Stikkorð: Skeljungur