Heildartap Fjarskipta hf., móðurfélags Vodafone, á fyrsta ársfjórðungi þessa árs nam 16 milljónum króna, en á sama tímabili í fyrra var 119 milljóna króna heildarhagnaður af rekstri fyrirtækisins. Þýðingarmunur vegna starfsemi erlends dótturfélags er neikvæður um 40 milljónir króna á tímabilinu, en ef ekki kæmi til hans væri 24 milljóna króna hagnaður á rekstri fyrirtækisins á fyrsta fjórðungi ársins.

Velta dróst saman um 150 milljónir króna og kostnaðarverð seldra vara og þjónustu dróst saman um 110 krónur. Framlegð minnkaði því úr 1.325 milljónum króna á fyrsta fjórðungi 2012 í 1.286 milljónir á sama tíma í ár. Rekstrarkostnaður jókst um rúmar hundrað milljónir króna milli ára og nam 1.111 milljónum í ár. Rekstrarhagnaður fyrirtækisins nam því 175 milljónum króna á fyrsta fjórðungi þessa árs samanborið við 319 milljóna króna rekstrarhagnað á sama tíma í fyrra.

Hrein fjármagnsgjöld lækkuðu aftur á móti á milli ára og námu 146 milljónum króna í ár en voru 173 milljónir í fyrra. Eignir og skuldir lækkuðu um hálfan milljarð króna á ársfjórðungnum og námu eignir 15,8 milljörðum í lok mars, en eignir námu tæpum níu milljörðum króna á sama tíma. Eigið fé stóð nær í stað og nam 6,8 milljörðum króna í lok fjórðungsins.

Handbært fé frá rekstri nam 118 milljónum króna á nýliðnum fjórðungi, en var 352 milljónir króna á sama tímabili í fyrra.

Í tilkynningu er haft eftir Ómari Svavarssyni, forstjóra Fjarskipta, að afkoman á tímabilinu skýrist í megindráttum af þremur þáttum. Í fyrsta lagi hafi samdráttur í einkaneyslu haft neikvæð áhrif á fjarskiptanotkun einstaklinga. Í annan stað hafi breytingar á uppgjörsaðferðum haft neikvæð áhrif á afkomu fjórðungsins, þar sem kostnaður færðist milli tímabila. Þriðji áhrifaþátturinn var að sögn Ómars aukinn rekstrarkostnaður, sem hækkaði nokkuð milli ára. Hann segist ósáttur við þá niðurstöðu og að þegar hafi verið hafist handa við að vinda ofan af því. Þá séu ráðgerðar breytingar á verðskrá, sem munu taka gildi 1. júlí næstkomandi.