Tap Reykjaneshafnar í fyrra nam 667,1 milljónum króna, sem er rétt tæplega 110 milljónum króna meira tap en árið 2011. Tap fyrirtækisins er nær fjórföld velta þess, en hún nam 181 milljón króna í fyrra, samanborið við 279,7 milljónir árið 2011. Rekstrartap nam 17,9 milljónum króna, samanborið við 60,1 milljóna króna rekstrarhagnað í fyrra. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2012 gerði aftur á móti ráð fyrir 126,1 milljóna króna rekstrarhagnaði. Munar þar mestu að efnissala úr námu í Helguvík átti að skila 175 milljónum króna til fyrirtækisins, en tekjur af henni skilaði í raun aðeins um 2,5 milljónum króna. Reykjanesbær er eigandi hafnarinnar.

Það sem ræður úrslitum um afkomu fyrirtækisins bæði árin er gríðarhár fjármagnskostnaður. Fjármagnsgjöld námu 650,1 milljónum króna í fyrra, en 618,2 milljónum árið 2011.

Í tilkynningu frá Reykjaneshöfn segir að þrátt fyrir erfiðan rekstur Reykjaneshafnar árið 20112 og skuldir sem nema um 6,7 milljörðum króna, muni eignastaða Reykjaneshafnar styrkjast á næstu árum. Það byggir á því að virði lóðargjalda á óúthlutuðum lóðum í Helguvík, samkvæmt gjaldskrá, er um 4,5 milljarðar kr.

„Eftir endurfjármögnun langtímalánanna á árinu 2011, þá er áætlað að rekstur hafnarinnar muni komast í jafnvægi á næstu árum með auknum tekjum vegna hafnargjalda, lóðargjalda, lóðarleigu og fasteignarskatta tekjurnar verði hærri en fjármagnskostnaðurinn og höfnin nái að greiða niður skuldir sínar. Í þeim áætlunum sem unnið er með gagnvart lánveitendum er gert fyrir að byggingarframkvæmdir við kísilver fari af stað sumarið 2013 og rekstur hefjist í byrjun ársins 2015,“ segir í tilkynningunni.