Flutningafyrirtækið Samskip tapaði ríflega 2,6 milljónum evra á síðasta ári, eða sem nemur 396 milljónum króna á gengi dagsins. Tap félagsins nam um 1,9 milljónum evra árið 2019 og jókst því um 39% milli ára.

Rekstrartekjur námu ríflega 151 milljón evra, að jafnvirði tæplega 23 milljarða króna og drógust þær saman um tæp 9% frá fyrra ári. Rekstrartap að frádregnum afskriftum (EBITDA) nam um 290 þúsund evrum og var um helmingi lægra en árið áður þegar það nam ríflega 560 þúsund evrum.

Eignir Samskipa námu að jafnvirði um 6,6 milljarða króna í lok árs, tæpum 13% lægra en ári fyrr. Eigið fé lækkaði um tæp 20% og nam um 1,9 milljörðum króna en skuldir lækkuðu um rúm 9% og námu um 4,6 milljörðum króna. Fyrir vikið lækkaði eiginfjárhlutfall félagsins lítillega, úr 32,1% í árslok 2019 í 29,5%.

Í skýrslu stjórnar kemur fram að Covid faraldurinn hafi sett mark sitt á reksturinn á fyrri helmingi síðasta árs, en áhrifin hafi verið takmörkuð á þeim síðari. Gerir stjórnin ráð fyrir að áhrif faraldursins verði áfram takmörkuð á yfirstandandi rekstrarári og óljóst hver heildaráhrif faraldursins verði til lengri tíma, verði þau yfirhöfuð nokkur.