Skandinavíska flugfélagð SAS tapað 306 milljónum sænskra króna, um 5,6 milljörðum ísl. króna, á öðrum ársfjórðungi reikningsársins (febrúar - apríl). Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Tap félagsins á sama tíma í fyrra nam 734 milljónum sænskra króna, um 13,5 milljörðum ísl. króna og er rekstrarbatinn því verulegur.

Í haust kynnti Rikard Gustafson, forstjóri SAS, um­fangsmiklar hagræðingaraðgerðir. Áætlunin nefnist 4ENG (Excellence NextGeneration) og fól í sér fjóra meginþætti. Í fyrsta lagi að sam­eina höfuðstöðvar félagsins í Sví­þjóð (í stað þess að reka þær á þrem­ur skrifstofum í Svíþjóð, Danmörku og Noregi) og í öðru lagi að fækka millistjórnendum um 800. Þriðja verkefnið var að endursemja við starfsmenn félagins og í fjórða lagi að minnka fjármagnskostnað með sölu eigna.

Áhöfnin þurfti að vera frá öllum „eigendaríkjunum" þremur

Gísli Freyr Valdórsson blaðamaður fjallaði ítarlega um fjárhag SAS í sérblaði Viðskiptablaðins FLUG sem kom út 16. maí sl. Þar sagði m.a.:

Kjarasamningar félagsins hafa ver­ið þunglamalegir á sama tíma og áhersla á „skandinavískt“ rekstrar­form, ef þannigmá að orði komast, hefur valdið félaginu miklum kostn­aði og fyrirhöfn.

Sem dæmi má nefna að áhafnir vélanna í millilanda­flugi þurftu að vera skipaðar í það minnsta einum Svía, einum Norð­manni og einum Dana.

Ef við tök­um dæmi um vél sem átti að fara frá Kaupmannahöfn til New York þurfti að flytja áhafnarmeðlimi frá Nor­egi og Svíþjóð til Kaupmannahafnar daginn fyrir flug sem fól í sér kostn­að í hótelgistingu, mat og dagpening­um fyrir utan flugsætin sem nýtt eru undir starfsmenn í stað þess að selja þau. Þetta fyrirkomulag var arfleifð frá ríkisrekstrarformi félagsins.