Tap Síldarvinnslunnar fyrir reiknaða skatta nam 261 milljón króna á fyrstu sex mánuðum ársins, reiknuð skattainneign nam 57 milljónum króna og var því tap tímabilsins 204 milljónir króna, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Hagnaður Síldarvinnslunar nam 728,4 milljónum króna á sama tímabili í fyrra.

Rekstrartekjur samstæðunnar á fyrri helmingi ársins 2006 voru alls 4.775 milljónir króna og kostnaðarverð sölu nam 3.749 milljónum króna. Vergur hagnaður var því 1.027 milljónir króna.

Aðrar tekjur samstæðunnar voru 175 milljónir króna. Útflutningskostnaður var 210 milljónir króna, skrifstofu- og stjórnunarkostnaður 106 milljónir króna og annar rekstrarkostnaður nam 42 milljónum króna.

Rekstrarhagnaður var því 843 milljónir króna. Hlutdeild í tapi hlutdeildarfélaga nam 69 milljónum króna. Fjármunatekjur voru 423 milljónir króna og fjármagnsgjöld námu 1.494 milljónum króna á fyrri hluta ársins 2006.

"Þrátt fyrir afar lélega loðnuvertíð síðasta vetur hefur hagstætt heimsmarkaðsverð á mjöli og lýsi og veiking íslensku krónunnar gert það að verkum að afkoma fyrir fjármagsliði er svipuð og fyrri hluta síðasta árs," segir í tilkynningunni.

"Útlit er fyrir að rekstur félagsins verði þokkalegur á síðari hluta ársins. Veiði á norsk-íslensku síldinni hefur gengið vel og hefur síldin mest öll verið unnin í mjöl og lýsi," segir í tilkynningunni.