Tap var að rekstri Símans á árinu 2006 og nam tapið 3,56 milljörðum króna eftir skatta, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands, og skýrist það einkum af gengisþróun. Hagnaður var af rekstrinum árið 2005, sem nam fjórum milljörðum.

"Hluti skulda Símans er í erlendri mynt og olli gengislækkun krónunnar gengistapi sem nam 5,77 milljörðum á árinu. Gengisvísitalan hækkaði úr tæplega 105 stigum í upphafi árs 2006 í rösklega 129 stig í árslok sem svarar til 23,1% gengislækkunar krónunnar. Í dag er gengisvísitalan um 122,1 stig´," segir í tilkynningunni.

"Árið 2006 var Símanum að mestu hagstætt. Rekstur félagsins hefur gengið vel og jókst framlegð um 17% og sala um 16%. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) jókst um 13%. Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta var 8.7 m.kr. sem lýsir öflugu sjóðstreymi félagsins. Hins vegar hefur óhagstæð gengisþróun krónunnar töluverð áhrif á rekstrarniðurstöðuna, eins og hjá fleiri innlendum fyrirtækjumm,? segir Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Símans.

Sala Símans á síðari helmingi ársins 2006 nam 13,3 milljörðum króna og jókst um 14,7% á milli ára. Salan fyrir allt árið 2006 nam 25 milljörðum, samanborið við 21,6 milljörðum árið áður, sem er 15,7% aukning.

Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) á síðari helmingi ársins nam 2,64 milljörðum króna og jókst um 33,9% frá sama tímabili 2005. EBIT fyrir árið allt nam 4,6 milljörðum en var 3.6 milljörðum fyrir 2005 og jókst því um einn milljarð, eða 27,7%.

Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir (EBITDA) var 8,44 milljarðar á árinu 2006, miðað við 7,5 milljarða árið áður. Það er aukning um 989 milljónir, eða 13,3%.