Skipti, móðurfélag Símans, tapaði 1,9 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins. Tap á sama tímabili árið 2010 var 6 milljónir krónar. Í tilkynningu félagsins segir að munurinn skýrist einkum af virðisrýrnun krónunnar.

Sala nam 13,5 milljörðum króna samanborið við 19,6 milljarða á sama tímabili 2010. Í tilkynningunni segir að á fyrri helmingi árs 2010 voru Sirius IT og Já upplýsingaveitur hluti af samstæðu uppgjöri og þegar sambærilegur rekstur sé borin saman var aukning í sölu 2,4% hjá samstæðunni.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 3,5 milljörðum króna, en var 3,7 milljarðar á sama tímabili 2010. EBITDA hlutfallið er nú 25,6% en var 18,9% í fyrra. „Að frádregnum einskiptiskostnaði er EBITDA hlutfallið 22,5% á fyrri helmingi 2011 sem þýðir 14,2% aukningu á milli ára. Einskiptiskostnaðurinn er vegna mismunar sem myndaðist þegar fjárhæð í ágreiningsmáli Símans hf., dótturfélags Skipta hf., við Seamobile Europe var lækkuð úr 7,7 milljónir evra í 4,5 milljónir evra.“

Eigið fé Skipta er 20,5 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall er 23,5%.

Steinn Logi Björnsson, forstjóri Skipta, segir í tilkynningu: „Eins og fram kemur í uppgjörinu þá fer undirliggjandi rekstur heldur batnandi eftir mjög erfitt tímabil og hafa þar yfirstandandi hagræðingaraðgerðir skilað sér. Undirbúningur fyrir endurfjármögnun félagsins hefur staðið yfir síðustu mánuði enda eru fjármagnsliðirnir félaginu þungir og takmarka svigrúm þess verulega. Hagræðing í rekstrinum heldur áfram og er unnið að því að skerpa áherslur á innlenda starfsemi og samþætta reksturinn út frá því. Við stefnum að því að bæta grunnreksturinn ennfrekar og með velheppnaðri endurfjármögnun þá erum við bjartsýn á framtíðina.“

Árshlutareikningur Skipta.