Tap Skipta hf. á öðrum ársfjórðungi nam 383 milljónum króna. Tap á fyrri hluta árs nam 4,0 milljörðum króna sem skýrist einkum af gengisþróun krónunnar, samkvæmt því sem segir í tilkynningu félagsins.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 4,1 milljarði króna en var 4,3 milljarðar á fyrri helmingi í fyrra. EBITDA hlutfall var 21,3%.

29% af tekjum Skipta komu af erlendri starfsemi félagsins. Eiginfjárhlutfall er 39,5%.

„Afkoman af reglulegri starfsemi Skipta á tímabilinu er  ágæt og fyrirtækin eru að ná góðum árangri í rekstri við mjög krefjandi ytri aðstæður. Gengisþróun íslensku krónunnar var  óhagstæð á tímabilinu og skýrir tap félagsins, þrátt fyrir gengisvarnir. Skipti halda áfram að vaxa og hlutirnir í fjarskiptafélögunum tveimur í Tékklandi falla vel að stefnu og starfsemi Skipta. Bæði félögin eru vel rekin og skila góðri afkomu. Við höfum sett okkur þau markmið að vöxtur Skipta eigi sér aðallega stað utan Íslands og í samræmi við þau markmið tökum við nú yfir hlutina í félögunum í Tékklandi. Fjárhagsstaða Skipta er sterk og rekstur dótturfélaganna gengur vel. Félagið er því í ágætri stöðu til að takast á við þau spennandi verkefni sem framundan eru,“ segir Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta hf., í tilkynningu frá félaginu.