Tap Smáralindar ehf. á fyrstu sex mánuðum ársins nam 733 milljónum króna, en tap fyrir sama tíma í fyrra nam 36 milljónum króna, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Tapið skýrist fyrst og fremst af gengistapi af erlendum skuldum félagsins sem nam 652 milljónum króna, segir í tilkynningunni.

Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 362 milljóna króna, samanborið við 337 milljónir króna fyrir sama tímabil á árinu 2005.

Heildarvelta verslana og þjónustuaðila í verslunarmiðstöðinni jókst um rúm 13% á fyrstu sex mánuðum ársins miðað við sama tíma árið áður. Þá jókst gestafjöldinn á fyrri helmingi ársins um 8%. Mikil eftirspurn er eftir húsnæði í Smáralind og hefur leiguverð stöðugt haldið áfram að hækka, segir í tilkynningunni.

Eins og áður er gert ráð fyrir að tekjur félagsins á síðari hluta ársins verði ívið hærri en á fyrri hluta ársins, meðal annars vegna innkomu nýrra leigusamninga og áhrifa veltutengdra leigusamninga. Horfur er á því að afkoma af rekstri félagsins fyrir fjármagnsliði (EBITDA) batni enn á síðari hluta ársins en ljóst er að breytingar á gengi íslensku krónunnar munu eins og áður hafa mikil áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins, segir í tilkynningunni.