Tap Smáralindar jókst í 654 milljónir króna árið 2006 úr 101 milljón árið áður, samkvæmt upplýsingum úr ársuppgjöri. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 742 milljónum króna, sem er um 8% aukning frá fyrra ári. Í lok tímabilsins var eiginfjárhlutfall félagsins 39,4% að teknu tilliti til víkjandi láns frá móðurfélaginu, samanborið við 45% árið áður.

Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 1.165 milljónir króna, samanborið við 446 milljónir króna árið áður. Breytingin á milli ára skýrist af veikingu íslensku krónunnar.

Rekstrartekjur jukust í 1.389 milljónir króna árið 2006 úr 1.259 milljónum króna árið áður. Þar af námu leigutekjur 1.066 milljónum króna, sem er 8% hækkun frá fyrra ári.

Heildareignir í árslok 2006 námu 9.881 milljónum króna, þar af nam bókfært verð verslunar-miðstöðvarinnar Smáralindar 9.274 milljónum króna. Heildareignir ársins 2005 námu 10.029 milljónum króna.

Í árslok 2006 var eigið fé félagsins 1.100 milljónir króna, samanborið við 1.754 milljónir króna árið 2005.

Á árinu 2007 er fyrirhugað að hefja byggingu 15 hæða skrifstofu- og verslunarhúss, svokallaðs Norðurturns á norðvestur-horni lóðar Smáralindar með 2ja hæða tengibyggingu sem opnast inn í verslunarmiðstöðina þar sem verslunin Útilíf er á efri hæð og Ormsson og Lyfja á neðri hæð. Ljóst er að tilkoma Norðurturnsins mun hafa verulega jákvæð áhrif á rekstur verslana í Smáralind, segir í ársuppgjörinu.