Tap Teymis á þriðja ársfjórðungi nam  1.187 milljónir króna en meðaltalsspá hafði gert ráð fyrir 745 milljóna króna tapi. EBITDA Teymis á þriðja ársfjórðungi nam 1.135 milljónum króna. Tekjur félagsins jukust um 18% frá fyrra ári og námu alls 5,3 milljörðum króna.  Gjaldfærsla vegna niðurfærlsu á eignarhlut í hlutdeildarfélaginu Hands Holding nam 1,1 milljarði króna og tap á 3. ársfjórðungi nam 1.187 milljónir króna.

Hagnaður Teymis á fyrstu 9 mánuðum ársins nam 1.575 milljónum króna. Innri vöxtur félagsins var 15% á tímabilinu og námu tekjurnar um 15,3 milljörðum króna.  Hagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 2.944 milljónum.  Veltufjárhlutfall Teymis er nú 1,6 og eiginfjárhlutfall 25%. Handbært fé frá rekstri nam 2.060 milljónum króna.

Árni Pétur Jónsson, forstjóri Teymis, segir í tilkynningu að reksturinn hafa gengið mjög vel á ársfjórðungnum og bæði velta og EBITDA samstæðunnar séu í samræmi við áætlanir. “Bæði fjarskipta- og upplýsingatæknihluti Teymis hafa vaxið mikið, afkoman er góð og sjóðsstreymið er mjög sterkt. Innri vöxtur fjarskiptahlutans er 18% og upplýsingatæknihlutans 11% á þriðja ársfjórðungi 2007 til samanburðar við þriðja ársfjórðung 2006. Þessi mikli innri vöxtur sýnir að fyrirtækin eru að auka markaðshlutdeild sína.”

Kynning á 9 mánaða uppgjöri Teymis fyrir hluthafa, fjárfesta og markaðsaðila fer fram á skrifstofu Teymis kl. 16:30 í dag.

Teymi hf. er eignarhaldsfélag á sviði fjarskipta og upplýsingatækni sem er skráð á aðallista OMX Nordic Exchange á Íslandi. Innan samstæðunnar eru dótturfélögin Vodafone, P/F Kall í Færeyjum, Mamma, SKO, Kögun, Skýrr, Eskill, Landsteinar Strengur, Hugur/Ax og  EJS. Starfsmenn dótturfélaga Teymis eru um 1200 talsins.