Tryggingamiðstöðin, TM, hefur birt ársreikning fyrir árið 2015. Hagnaður ársins nam 2,8 milljörðum króna, en hann var tæpur 2,1 milljarður árið áður. Hagnaðurinn er allur kominn til vegna fjárfestingarstarfsemi en tap var á tryggingarstarfsemi TM sem nam 1 milljón króna.

Iðgjöld TM hækka úr 11,3 milljörðum króna á árinu 2014 í 12,6 milljarða á árinu 2015. Alls nemur hækkun iðgjalda 1,33 milljörðum króna eða 12%. Töluverð aukning er þó í tjónakostnaði eða sem nemur 1.664 milljónum, en það er 19% hækkun tjónakostnaðar. Samsett hlutfall í vátryggingastarfsemi var 103% fyrir árið í heild og hafði þá lækkað úr 126% frá fyrsta fjórðungi.

Fjárfestingarstarfsemi TM skilar félaginu töluverðum hagnaði. Alls námu fjárfestingartekjur rúmum 4 milljörðum á árinu, en þær voru 2,6 milljarðar árið áður. Aukningin í fjárfestingartekjum nemur 55%.

Stjórn TM leggur til 1.500 m.kr. arðgreiðslu á árinu 2016. Að auki leggur stjórn til að allt að 1.500 m.kr. verði varið til kaupa á eigin bréfum.