Samfélagsmiðillinn Twitter greindi frá tapi upp á 145 milljónir dollara, eða um 16,7 milljörðum íslenskra króna, á öðrum ársfjórðungi, frá mars til júní. Tapið er þrefalt meira hjá félaginu í ár en á sama tímabili í fyrra.

Twitter er nú með 271 milljón mánaðarlegra notenda, sem er 24% aukning frá því í fyrra. 16 milljónir notenda bættust við á öðrum ársfjórðungi, 13 milljónir utan Bandaríkjanna og 3 milljónir Bandaríkjamanna.

Auglýsingatekjur fyrirtækisins jukust um 129% á tímabilinu og námu 277 milljónum dollara, eða um 32 milljarðar íslenskra króna. Stærsti hluti auglýsingatekna voru auglýsingar fyrir snjallsíma, en 78% notenda nota twitter í gegnum snjallsíma.