Unity Software, félag Davíðs Helgasonar, tapaði 145 milljónum dollara, andvirði tæplega tuttugu milljarða króna, á þriðja ársfjórðungi 2020 sem er að sama skapi fyrsti ársfjórðungur félagsins sem skráð félag. Tap Unity nam 45,5 milljónum dollara á sama fjórðungi árið áður en fyrirtækið hefur aldrei skilað hagnaði.

Tekjur félagsins námu 201 milljón dollara á fjórðungnum, jafngildi um 27,5 milljarða króna og jukust tekjurnar um ríflega helming milli ára. Fyrirtækið áætlar að tekjur á fjórða ársfjórðungi verði 200-204 milljónir dollara. Ef fer sem horfir verða árstekjur Unity árið 2020 um 754 milljónir dollara sem er ríflega þriðjungshækkun milli ára. Samkvæmt frétt MarketWatch voru tekjur Unity umfram væntingar greinenda.

Unity býr til hugbúnað sem mikill fjöldi tölvuleikja byggir á, sér í lagi fyrir snjallsíma. Í frétt MarketWatch kemur fram að forstjóri fyrirtækisins, John Riccitiello, sagði að Unity hyggst sækja inn á aðra markaði en einungis tölvuleikjaiðnaðinn. Til að mynda afþreyingu, iðnað sem og bílaiðnað. Átta af tíu stærstu arkitekta-, verkfræði- og hönnunarfyrirtækjum heims hafa notast við hugbúnað Unity sem og níu af tíu stærstu bílafyrirtækjum heims.

Í fjárfestakynningu Unity kemur fram að leikir sem notast við hugbúnað Unity voru sóttir að jafnaði í um fimm milljarða skipti í hverjum mánuði á fyrstu níu mánuðum ársins. Mánaðarlegir notendur á smáforritum sem styðjast við hugbúnað Unity voru um 2,5 milljarðar.

Hlutabréf Unity lækkuðu um rúmlega sex prósent í kjölfar uppgjörsins. Þegar þetta er skrifað standa bréf félagsins í tæplega 115 dollurum og markaðsvirði Unity er rúmlega 30 milljarðar dollara, andvirði um 4.100 milljarða króna. Hæst hafa bréf Unity farið í 120 dollara hvert en útboðsgengi félagsins við skráningu í kauphöll New York nam 52 dollurum.

Davíð Helgason, einn af þremur stofnendum, á 10,4 milljónir hluta í Unity eða sem samsvarar fjögur prósent hlut í félaginu. Miðað við núverandi markaðsverð er hlutur Davíðs því um 1,2 milljarða dollara, eða um 163 milljarða króna, virði.