Meðal niðurstaðna skýrslunnar má telja að eftir mismunandi breytum gæti tap verið að minnsta kosti 2 milljarðar króna og að mestu leyti 18 milljarðar króna, yfir mislöng tímabil, mismikla hlutdeild Rússlandsmarkaðar, og með mismunandi útflutningsvöxt.

Til að mynda gæti tap hagsmunaaðila numið allt að 2,9 milljörðum króna ef innflutningsbanninu er haldið til streitu í 3 ár með 1% útflutningsaukningu á ári hverju. Þá er miðað við að hlutdeild Rússlands í útflutningsmarkaði Íslendinga nemi 5% af heildarútflutningi.

Til samanburðar má nefna að ef hlutdeildin er 30%, tímaramminn 3 ár og útflutningsaukningin 1% myndi tap hagsmunaaðilanna nema 17,5 milljörðum íslenskra króna.

Erfitt er að meta nákvæmlega hversu stóran hlut í íslenskum útflutningsmarkaði rússneskir kaupendur hafa, vegna þess að samdráttur ríkir í efnahagsmálum Rússa og kaupmáttur þeirra hefur dregist saman upp á síðkastið og gæti haldið áfram að gera það.

Í niðurstöðum skýrslunnar, sem finna má í heild sinni hér , er því sagt að efnahagsleg áhrif innflutningsbannsins geti verið umtalsvert, en að erfitt sé að segja til með vissu, hver þau raunverulega verða, vegna óvissu um efnahagslega framtíð Rússa.