Eigendur kjarnorkuofnanna þriggja sem nú eru lokaðir í Svíþjóð segjast tapa hundruðum milljóna króna á dag vegna tekjutaps, segir í frétt Dow Jones.

Kjarnaofni var lokað í Forsmark kjarnorkuverinu 25. júlí af öryggisástæðum vegna galla sem kom í ljós eftir að rafmagn fór af. Vattenfal Group á kjarnorkuverið og segir fyrirtækið að tap vegna lokunarinnar nemi tíu milljón sænskra króna á dag, eða tæpum hundrað milljónum króna.

Viku síðar var tveimur kjarnaofnum lokað í Oskarshamn af sömu ástæðu og segja talsmenn OKG, eiganda kjarnorkuversins að tap vegna lokananna nemi einnig um hundrað milljónum króna á dag, segir í fréttinni.

Enn er óljóst hvenær ofnarnir verða opnaðir aftur, en í Svíþjóð eru tíu kjarnaofnar sem sjá þjóðinni fyrir 50% af orkuþörf.