Bráðabirgðauppgjör Wow air fyrir fyrstu tvo mánuði ársins 2019 sýnir 2,7 milljarða króna tap á tímabilinu að því er Morgunblaðið greinir frá. Þrátt fyrir það telja fyrrum stjórnarmenn félagsins og fjármálastjóri það hafa verið gjaldfært allt fram að gjaldþrotinu 28. mars sama ár að því er fram kemur í skýrslutökum yfir þeim í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Slitabú Wow höfðar nú mál gegn Titan, fjárfestingarfélagi Skúla Mogensen fyrrum forstjóra Wow, vegna greiðslu á 108 milljónum króna frá Wow til Titan í janúarlok 2019.

Segja slitastjórarnir félagið þá þegar hafa verið orðið ógjaldfært, en um var að ræða greiðslu vegna sölu Titan á Cargo Express til Wow air. Greiðslan var greidd nokkru áður en síðustu forvöð voru á greiðslunni sem var í lok apríl sama ár, það er um mánuði eftir að Wow fór í gjaldþrot.

Stjórnarmenn félagsins segjast fyrir dómi ekki kannast við að hafa fengið kynningu á uppgjörum fyrstu tveggja mánaða ársins 2019 á stjórnarfundum það ár. Engar fundargerðir eru til fyrir stjórnarfundi félagsins það ár, stjórnarmenn segjast ekki kunna neinar skýringar á því, en segja mögulegt að ekki hafi unnist tími til að ganga frá þeim formlega.

Helga Hlín Hákonardóttir stjórnarmaður segir félagið hafa verið að horfa fram á við á þessum tíma og einblína á að koma því fyrir vind, en Stefán Sigurðsson fjármálastjóri Wow bar við minnisleysi um hvort hann hefði kynnt uppgjörin fyrir stjórninni eður ei.

Uppfært:

Tilkynning frá fyrrverandi stjórnarmönnum WOW air

Í gær voru fyrrum stjórnarmenn, fjármálastjóri og yfirlögfræðingur Wow air vitni í máli slitabús WOW air gegn Títan fjárfestingafélagi. Í Morgunblaðinu í dag (föstudagurinn 6 mars) má finna frétt frá hluta þinghaldsins sem gefur villandi mynd af vitnum og þinghaldinu.

Fyrirsögnin "Skoðuðu ekki uppgjör” er meiðandi

Stjórn var spurð út í uppgjör ársins 2018 og uppgjör fyrir janúar og febrúar 2019. Um var að ræða vinnugögn starfsmanns sem ekki voru fullkláruð og því ekki lögð fyrir stjórn.

Stjórn og stjórnendur funduðu ítrekað á þessum tíma og var áhersla lögð á að tryggja flugöryggi, greiða forgangskröfur og vinna þau verkefni er tengdust sölu á félaginu. Sérfræðingar á vegum Samgöngustofu funduðu auk þess reglulega með stjórn og stjórnendum um fjárhagslega stöðu félagsins og aldrei var ágreiningur um fjárhagsstöðu þess.

Rangt að engar fundargerðir hafi verið haldnar

Það er alrangt að stjórnarmenn hafi ekki getað gefið skýringar á því hvers vegna fundargerðir fyrir árið 2019 fundust ekki í skjalagátt stjórnar.

Sjórnarmenn gáfu skýringar á því. Fjöldi funda voru haldnir, ritari stjórnar félagsins hélt fundargerðir og stjórnarmaður félagsins í hans fjarveru. Hinsvegar gafst ekki færi á að ganga endanlega frá formlegum fundargerðum og undirrita þær fyrir gjaldþrot félagsins. Stjórnendur og stjórn félagsins gáfu á þessu skýringar og er það alls ekki þannig líkt og lesa má í Morgunblaðinu í dag að engar skýringar hafi verið gefnar.  Þá var yfirlögfræðingur félagsins jafnframt kallaður til sem vitni en hann var jafnframt ritari stjórnar og gaf hann sömu skýringar og staðfesti tilvist framangreindra fundargerða.