Mestallar kröfur í veitingahúsakeðju Jamie Oliver í Bretlandi munu tapast, eða um 80 milljónir punda, eða sem samsvarar 13 milljörðum íslenskra króna að því er stjórnendur þrotabúsins segja. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í maí fór veitingahúsakeðjan, sem nefnd er eftir sjónvarpskokkinum fræga, í þrot, en hún var stofnuð árið 2008.

Áður höfðu heyrst fréttir af rekstrarerfiðleikum staðanna í landinu, en þær hafa ekki áhrif á rekstur veitingahúsa utan Bretlands sem rekin eru undir merkjum sjónvarpskokksins, þar á meðal Jamie Oliver´s Italian sem rekinn er í Hótel Borg .

Eignarhaldsfélag Jamie Oliver mun líklega tapa mest allt af þeim 57,7 milljónum punda sem félagið átti í keðjunni, en hundruð birgja veitingastaðanna munu væntanlega bera þyngstu birðarnar.

Um þúsund manns misstu vinnuna þegar skiptastjórarnir tóku yfir rekstur veitingahúsakeðjunnar og næstum öllum veitingahúsum hennar var lokað. Þrem eftirlifandi veitingastöðum, sem allir eru starfræktir á Gatwick flugvelli, var haldið starfandi áfram.

Með sölu þeirra til eignarhaldsfélagsins SSP varðveittust um 250 störf í þeim að því er Guardian greinir frá, en söluandvirðið nam um 550 þúsund pundum, eða sem samsvarar um 89,1 milljón króna.

Jafnframt tókst skiptastjórunum að tryggja þrotabúinu um 1,45 milljón punda tekjur, eða sem samsvarar um 235 milljónum íslenskra króna með sölu á leiguréttindum, svo forgangskröfuhafar munu fá um 300 þúsund pund upp í sínar kröfur.