Þrotabú Glitnis reiknar með því að tapa 15 milljörðum króna á láni sem Glitnir veitti Milestone í Vafningsfléttunni svokölluðu.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (RÚV) kom fram að Eiríkur S. Jóhannsson hjá þrotabúi Glitnis, hafi í aðalmeðferð í Vafningsmálinu sagt líkur á að einn milljarður króna skili sér upp í kröfur. Vafningur heitir nú Földungur.

Földungur tapaði rétt rúmum 6,2 milljörðum króna í fyrra. Eigið fé félagsins var neikvætt um tæpa 42 milljarða króna.  Félagið hagnaðist um rúma 884 milljónir króna árið 2010, sem skýrist að nær öllu leyti af gengishagnaði. Skuldir félagsins, sem allar eru í erlendri mynt, námu 43,3 milljörðum króna í fyrra. Í Vafningsmálinu svokallaða lánaði Glitnir félaginu 10 milljarða króna. Féð rann hins vegar allt í gegnum félagið og til Milestone.

Samkvæmt ársreikningnum átti Földungur 100% hlut í fasteignafélaginu SJ Properties MacauOne Central HoldCo og 85,2% hlut í félaginu  KCAJ.