Gísli Matthías Auðunsson, einn eiganda veitingastaðarins Slippsins í Vestmanneyjum segir staðinn hafa tapað 2,5 milljónum á röskunum í ferðum Herjólfs það sem af er júlímánaðar.

„Þá tvo daga sem samgöngur voru tæpar í júlí misstum við fimm hópa,“ er haft eftir Gísla Matthíasi í Morgunblaðinu.„Fastur kostnaður, hráefni og starfsmannahald helst óbreytt þó svo Herjólfur sigli ekki. Fréttir af ótryggum samgöngur valda líka skaða.“

Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Herjólfs, segir það fordæmalaust að ferðir falli niður í júlímánuði. „Ferðirnar sem fallið hafa niður og eru óöruggar í næstu viku eru þær sem mest eru notaðar og það hefur veruleg áhrif,“ segir Gunnlaugur.

Kristín Jóhannesdóttir, safnstjóri Eldheima tekur undir áhyggjum Gísla af skaða af ótryggum samgöngum, en hún segir safnið tapa hundruðum þúsunda af því að ferðir falli niður.