Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði við upphaf þingfundar í dag að ríkið myndi verða af hundruða eða jafnvel milljarða króna skatttekjum vegna skattahækkana. Dæmin væru farin að sýna fram á sannleiksgildi viðvarana sjálfstæðismanna við skattahækkunum og það gæti jafnvel haft þau áhrif að skatttekjur ríkissjóðs drægist saman.

Nefndi Illugi í þessu samhengi afdráttarskatt af vaxtagreiðslum í tenglsum við erlend eignarhalds- og fjármögnunarfélögum sem hafa starfað á Íslandi. „Þannig að þessi fyrirtæki sem hér hafa starfað hafa verið meðal hæstu skattgreiðenda, hér í Reykjavík í það minnsta. Fjögur slík fyrirtæki voru á lista yfir tíu hæstu skattgreiðendur á höfuðborgarsvæðinu. Samanlagt skiluðu þau fyrirtæki um milljarði króna í skatttekjur.

Nú stefnir í það, og hefur komið fram, að þessi fyrirtæki munu líklega fara úr landi vegna þeirra skattabreytinga sem gerðar hafa verið og sérstaklega hafa menn áhyggjur af því hvaða skattabreytingar séu væntanlegar því fjármálaráðherra, hæstvirtur, hefur lýst því yfir að menn hafa ekki séð allt hvað það varðar," sagði Illugi.

Niðurskurður og fjárlagahalli

„Þannig að hér er fyrirsjáanlegt tekjutap ríkissjóðs vegna skattahækkana sem getur hlaupið á hundruðum og jafnvel milljörðum króna. Það gerir það að verkum að þeir peningar, sem komu áður inn í ríkissjóð vegna þessarar starfsemi og var hægt að nota til þess að reka sjúkrahús og menntakerfi, fara nú úr landinu vegna þessara aðgerða ríkisstjórnarinnar. Það gerir það að verkum að fjárlagahallinn verður meiri en ella og niðurskurðurinn meiri en ella."