Gjöld ríkissjóðs reyndust 688 milljarðar króna árið 2008 en árið 2007 námu þau 398 milljörðum króna samkvæmt ríkisreikningi. Hækkun milli ára nam 290 milljörðum króna, 73% eða um 54% að raungildi. Meginskýringin á þessum miklu viðbótarútgjöldum eru veruleg aukning í óreglulegum gjöldum sem áttfaldast milli ára. Þar af eru tapaðar kröfur 192 milljarðar króna.

Þetta tap á kröfum er afleiðing af hruni viðskiptabankanna þriggja, hækkun lífeyrisskuldbindinga um 41 milljarða króna, afskriftir skattkrafna 12 milljarðar króna og greiddur fjármagnstekjuskattur 3 milljarðar króna. Útgjöld til heilbrigðismála námu 110 milljörðum króna eða 16% af gjöldum ríkissjóðs. Hækkun milli ára nam 14 milljörðum króna eða 2% að raungildi.

Gjöld til almannatrygginga og velferðarmála námu 101 milljörðum króna eða 15% af gjöldum ríkissjóðs og hækka um 6% að raungildi milli ára. Þá námu gjöld til menntamála 42 milljörðum króna eða 6% af gjöldum ríkissjóðs og hækkuðu um 2% að raungildi. Gjöld til efnahags- og atvinnumála hækkuðu um 16% að raungildi og námu 68 milljörðum króna eða 10% af gjöldum ríkissjóðs. Gjöld vegna annarra málaflokka námu samtals 120 milljörðum króna eða 17% af gjöldum ríkissjóðs.