Tekjur Airport Associates (APA) drógust saman um 63% milli ára og námu 1,1 milljarði króna á síðasta ári sem skýrist af minni flugumferð. Ársverkum fækkaði úr 276 í 106. Samanlagt tap af rekstri áranna 2019 og 2020 nemur 414 milljónum. Eigið fé í lok síðasta árs nam 29 milljónum og skuldir 670 milljónum. APA var þjónustufyrirtæki WOW á Keflavíkurflugvelli og mun nú þjónusta Play.

Í ársreikningi APA kemur fram að félagið hafi nýtt sér hlutabótaleiðina og stuðning um greiðslu hluta launa á uppsagnarfresti. Jafnframt hefur félagið nýtt frestun gjalddaga á hluta staðgreiðslu og tryggingagjalds til sumars 2021. Þá hafi lánardrottnar APA veitt félaginu stuðning og greiðslufresti.

APA er í eigu Rea ehf., sem Skúli Skúlason og Guðbjörg Astrid Skúladóttir eiga sitthvorn 47,5% hlut í. Skúli er hluthafi og varaformaður stjórnar Play. Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóri Airport Associates, á 5% hlut í Rea.

Rea tapaði 220 milljónum á síðasta ári og 449 milljónum árið 2019. Eignir félagsins námu rúmlega tveimur milljörðum króna í árslok 2020 en eigið fé var neikvætt um 90 milljónir.