*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 2. ágúst 2021 12:47

Tapað 582 milljónum á tveimur árum

Bílaumboðið Askja festi kaup á 30% hlut í Sleggjunni ehf. í apríl síðastliðnum.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Top ehf., móðurfélag Bílaumboðsins Öskju, tapaði 155 milljónum króna á síðasta ári og hefur nú tapað 582 milljónum á síðustu tveimur árum. 

Rekstrartekjur jukust um 15% milli ára og námu 16 milljörðum. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 201 milljón. Laun og launtengdur kostnaður lækkaði um 72 milljónir milli ára og námu 1,6 milljörðum króna. Stöðugildi vour að meðaltali 146 á síðasta ári, samanborið við 150 árið áður.

Eigið fé var 1,2 milljarðar króna í árslok, skuldir 5,4 milljarðar og eiginfjárhlutfall því 18%. Hlutafé var hækkað um 112,5 milljónir gegn skuldajöfnun við tengda aðila. 

Bílaumboðið Askja er þjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í sölu og þjónustu á bifreiðum frá Mercedes-Benz, Kia og Honda. Askja festi kaup á 30% hlut í Sleggjunni ehf. í apríl síðastliðnum. Með kaupunum mun þjónustuverkstæði atvinnubifreiða Mercedes-Benz færast yfir í starfsemi Sleggjunnnar.  

Stærstu eigendur Top ehf. eru hjónin Hjörleifur Jakobsson og Hjördís Ásberg með 47,1% og Frosti Bergsson með 19,8%. Aðrir hluthafar eru Bert Hansson, Egill Ágústsson, Jón Trausti Ólafsson og franska fyrirtækið Groupe Comte-Serres (GCS).

Jón Trausti Ólafsson er framkvæmdastjóri Öskju.

Stikkorð: Askja Top ehf. Sleggjan ehf.