Markaðsvirði indversku samsteypunnar Adani Group og félaga tengdum henni hefur dregist saman um meira um 48 milljarða dala frá því að þekktur skortsali, Hindenburg Research, birti skýrslu með ásökunum um markaðsmisnotkun og bókhaldssvindl.

Gautam Adani, ríkasti maður Asíu, hefur tapað yfir 22 milljörðum dala, eða sem nemur yfir 3 þúsund milljörðum króna, frá því gærkvöldi. Það samsvarar tæplega fimmtung af auðæfum Adani sem er á sjöunda sæti á rauntímalista Forbes yfir ríkustu menn heims.

Þrátt fyrir mótbyrinn hyggst Gautam Adani halda ótrauður áfram með 2,4 milljarða dala hlutafjárútboð og sýna þar alþjóðlegan áhuga á samsteypunni, sem starfar m.a. á sviði innviða og á orkumarkaði.

Hlutabréf Adani Enterprises, flaggskips samsteypunnar sem heldur utan um hlutafjárútboðið, hefur fallið um 18% í dag. Gengi Adani Enterprises er undir 2.800 rúpíum en til samanburðar hafi hornsteinsfjárfestar, þar á meðal BNP Paribas og Goldman Sachs, í útboðinu þegar skuldbundið sig til að kaupa í félaginu á genginu 3.276 rúpíur.

Gautam Adani hefur hótað því að höfða mál gegn Hindenburg vegna ásakananna. Skortsölufyrirtækið segir að fagna mögulegri málssókn, þar sem það gæti þá krafist gagna frá indversku samsteypunni.

Þekkti vogunarsjóðstjórinn Bill Ackman blandaði sér í málið í gær og lýsti skýrslunni sem „mjög sannfærandi“ og að ljóst væri að Hindenburg hefði rannsakað málið afar vel.