„Orkuveitan tók stöðu með íslensku krónunni. Meðal þess  sem notað var til að réttlæta þessa stöðutöku var vaxtasparnaður miðað við það ef allar skuldir Orkuveitunnar hefðu verið í íslenskum krónum,“ segir meðal annars í áliti úttektarnefndar í skýrslu hennar um málefni Orkuveitunnar í dag.

100 milljarða uppsafnað tap

Þar segir að uppsafnað gengistap sé um 100 milljarðar króna á meðalverðlagi ársins 2010. Því sé fall íslensku krónunnar stærsta einstaka ástæðan fyrir fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Gengistapið er þó ekki eingöngu vegna fjármögnunar í erlendri mynt heldur einnig vegna samsetningu mynta sem lánin voru tekin í. Miðað við samsetningu gengisvísitölu íslensku krónunnar tapaði fyrirtækið 12,2 milljörðum á þeirri samsetningu sem var valin.

Þá segir í skýrslunni að sú áhætta sem fólst í gengisveikingu krónunnar var ekki varin. Því tók Orkuveitan stöðu með íslensku krónunni eins og fyrr segir. Tímabundinn ávinningur var af þessu vegna gengishagnaðar og vaxtasparnaðar á árunum 2002-2007. Lág fjármagnsgjöld gerðu það einnig að verkum að fyrirtækið gat greitt út arð til eigenda.