Tap á rekstri eignarhaldsfélagsins M8, sem er í eigu Eignasafns Seðlabanka Íslands, hefur numið 250 milljónum króna á rekstrarárunum 2014 og 2015. Þetta kemur fram í umfjöllun Morgunblaðsins .

Keðja 90 lyfjaverslana í Úkraínu

Í óbeinni eigu þess var 100% eignarhlutur í lyfjaverslunarkeðjunni Salve Pharmacy í Úkraínu þangað til eignarhluturinn var færður beint undir ESÍ á síðasta ári.

Verslunarkeðjan rekur hátt í 90 lyfjaverslanir í Úkraínu en eiginfjárstaða M8 var neikvæð um 59 þúsund krónur í árslok 2015. Tap ársins hafði þá þurrkað út eigið fé félagsins, en í árslok 2014 hafði það numið 159,1 milljón króna.

Eigið fé neikvætt um 607 milljónir

Undir lok ársins 2013 nam það ríflega 250 milljónum króna. M8 átti félagið í gegnum eignarhaldsfélagið Ukrapteka LTD sem vistað er í Bretlandi. Eignaðist ESÍ M8 árið 2014, en það félag virðist hafa eignast kröfur á Ukrapteka árið 2013.

Eigið fé þess félags var neikvætt um 5,3 milljónir Bandaríkjadala um síðustu áramót, eða sem jafngildir um 607 milljónum króna á gengi dagsins dagsins í gær.

Þá hafði staða félagsins versnað umtalsvert frá árinu áður, þegar ESÍ eignaðist hlut í því. Þá var eigið fé þess neikvætt sem nam 3,9 milljónum dala, sem jafngildir 445 milljónum króna.