Milljarðamæringurinn John Paulson sem stofnaði og stýrir vogunarsjóðnum Paulson & Co. er sagður hafa tapað yfir einum milljarði Bandaríkjadala í síðustu viku vegna verðfalls á gulli.

Paulson er þekktastur fyrir að hafa veðjað gegn bandaríska húsnæðismarkaðnum og svokölluðum undirmálslánum. Hann á að hafa grætt um fimm milljarða dollara vegna þeirra viðskipta.

Á tveimur dögum í síðustu viku féll gull mikið í verði og er tap Paulson sagt vera um milljarður dollara, eða um 116 milljarðar íslenskra króna. Verð á gulli hefur ekki verið lægra í um tvö ár.

Forbes hefur áður sagt persónuleg auðæfi Paulson vera um 11,2 milljarða dollara virði. Nánar er fjallað um málið á vef Guardian .