*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 22. apríl 2019 14:05

„Tapaði milljón á dag"

Friðrik Sophusson segir að rekstur Ríkisskipa á sínum tíma sé ágætt dæmi um það hvað viðjar vanans geta verið sterkar.

Trausti Hafliðason
Friðrik segir að einkavæðingin á tíunda áratugnum hafi átt miklu fylgi að fagna á Alþingi.
Haraldur Guðjónsson

Friðrik Sophusson, sem var fjármálaráðherra frá árinu 1991 til 1998 er í ítarlegu í viðtali í 25 ára afmælisriti Viðskiptablaðsins sem var að koma út. Í viðtalinu er megináherslan lögð á fjármálaráðherratíð hans.   

Einkavæðing tíunda áratugarins

Eins og fram hefur komið þá var farið í umfangsmikla einkavæðingu á tíunda áratugnum. Vakti þetta mikla athygli en á þessum tíma voru allt að 30 ríkisfyrirtæki seld eða lögð niður.

„Fylgt var ákveðnu ferli með skýrum verklagsreglum,“ segir Friðrik. „Yfirstjórnin var í höndum forsætisráðherra, fjármálaráðherra, viðskiptaráðherra og utanríkisráðherra. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu starfaði samkvæmt sérstöku erindisbréfi frá forsætisráðherra. Viðkomandi ráðherrar og ráðuneyti komu að málum þegar fjallað var um einstök fyrirtæki. Einkavæðingin átti miklu fylgi að fagna á Alþingi. Það voru fyrst og fremst þeir sem voru lengst til vinstri, þingmenn Alþýðubandalagsins, sem voru á móti henni og töluðu um einkavinavæðingu. Einkavæðing í litlu samfélagi, þar sem allir þekkja alla eða eru skyldir, getur auðvitað verið viðkvæm.

Í þessu sambandi má ekki gleyma því, að ríkisstjórn Framsóknar, Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Borgaraflokksins hafði á árinu 1990 hlutafjárvætt Útvegsbankann, sem var upphafið að sameiningum banka og fyrsta skrefið í einkavæðingu þeirra því þetta leiddi til stofnunar Íslandsbanka h.f. Þessi sama ríkisstjórn lagði einnig grunninn að framsali kvóta, en það var mikilvægt tæki til að gera kvótakerfið skilvirkara.“

Friðrik segir að margt sé minnisstætt í einkavæðingarferlinu.

„Ég verð samt að nefna Ríkisskip. Þetta skipafélag var stofnað árið 1930 en árið 1992 voru aðstæður orðnar allt aðrar í íslensku samfélagi. Á þessum tíma voru tvö önnur skipafélög starfandi, Eimskip og Samskip og því tókum við ákvörðun að leggja Ríkisskip einfaldlega niður. Við seldum skipin á 350 milljónir króna, en þá er bara hálf sagan sögð því ríkið sparaði ámóta fjárhæð á hverju ári með því að leggja félagið niður því þegar það var gert tapaði félagið einni milljón króna á dag.

Viðjar vanans

Rekstur Ríkisskips á þessum tíma er ágætt dæmi um það hvað viðjar vanans geta verið sterkar. Þetta getur líka átt við um ríkisstofnanir. Björn heitinn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri lagði oft ýmislegt áhugavert til málanna. Meðal annars sagði hann: „opinberar stofnanir hafa oft tilhneigingu til að öðlast eilíft líf“. Með þessum orðum var hann að leggja áherslu á að leysa mætti mörg verkefni án þess að setja á laggirnar sérstaka stofnun. Um leið og stofnun verður til reyna stjórnendur og starfsmenn, með dugnaði sínum og góðvild, að viðhalda stofnuninni, jafnvel þó að upphaflegu hlutverki sé lokið.

Í dag er Umboðsmaður skuldara ágætt dæmi um þetta. Þetta embætti var sett á laggirnar skömmu eftir hrun. Nú er búið að leysa úr þeim málum en embættið lifir samt góðu lífi í dag við að fást við mál sem eru óskyld hruninu.“

Viðtalið má lesa í heild í 25 ára afmælistímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift á sérstöku afmælistilboði hér eða pantað tímaritið.