Miðlari (e. trader) hjá japönsku Mitsubishi samsteypunni í Singapúr tapaði samtals 320 milljónum dollara á misheppnuðum afleiðuviðskiptum með olíu samkvæmt frétt Financial Times . Að sögn japanska stórfyrirtækisns hafði miðlarinn átt í stöðutökum frá því í byrjun janúar á þessu ári þar sem hann veðjaði á hækkun olíuverðs en stöðurnar voru teknar án heimildar frá fyrirtækinu.

Þrátt fyrir að olíuverð hafi hækkað í byrjun árs leiddu stöðutökurnar til stórtaps þegar olíuverð tók að lækka í sumar en verð á Brent hráolíu lækkaði úr um 65 dollurum á fatið niður í 52 dollara í byrjun ágúst. Til að gera illt verra þá lokaði Mitsubishi stöðum miðlarans í ágúst þegar olíuverð var sem lægst og missti því af hækkunum þessa mánaðar sem komu í kjölfar drónaárásar á olíuframleiðslustöðvar í Sádi Arabíu.

Samkvæmt Mishubishi var miðlarinn yfir hráolíuviðskiptum við Kína hjá Pedro-Diamond sem er dótturfélag Mishubishi. Voru stöðutökurnar látnar líta út eins og varnir í viðskiptum við viðskiptavini fyrirtækisins. Fyrirtækið hóf að rannsaka gjörðir starfsmannsins þegar hann var í fríi í ágúst og þá komst upp um stöðutökurnar. Honum var samstundis sagt upp störfum og tilkynntur til lögregluyfirvalda. Mitsubishi hefur ekki viljað gefa upp nafn miðlarans þar sem málið sé enn í rannsókn.

Mishubishi skilaðu um 5 milljarða dollara hagnaði á síðasta ári af víðtækri starfsemi fyrirtækisins. Tap miðlarans þykir því ekki ógna fjárhagslegum stöðugleika Mitsubishi en þykir þó hið vandræðalegasta fyrir fyrirtækið.

Þá er þetta ekki í fyrsta sinn sem Mishubishi tapar milljónum dollara á stöðutökum í orkuafurðum sem teknar voru án heimildar í Singapúr. Árið 2007 tapaði miðlari 81 milljón dollara á viðskiptum með kolefniseldsneytið Naphtha. Þá þykir málið minna umtalsvert á afleiðuviðskipti Nick Leeson sem enduðu á knésetja hinn aldagamla Barings banka á tíundaáratugnum og fjallað var um í kvikmyndinni Rouge Trader.