Tapaður hagnaður af makrílveiðum árið 2011 er 1,5 milljarðar sem jafngildir um 406 verkamannastörfum yfir árið. Þetta kemur fram í lokaritgerð Konráðs Guðjónssonar sem er að útskrifast úr hagfræði í Háskóla Íslands.

Í rannsókninni er veiðum á uppsjávarskipum bornar saman við veiðar á ísfisks- og frystitogurum og rekstrarkostnaður borinn saman. Þar kemur fram að ef uppsjávarskip fengju rétt innan við tvær vikur til viðbótar til að veiða makríl væri hægt að halda óbreyttum veiðum með minni kostnaði.

Ísfisks- og frystitogarar eru dýrari í rekstri og ekki jafn vel búnir veiðarfærum til makrílveiða samanborið við uppsjávarskip. Því þarf að fjárfesta í búnaði á þau skip og dæmi er um að slíkur kostnaður sé allt að 30 milljónum á eitt skip. Olíukostnaður frystitogara til að veiða eitt tonn af makríl getur verið fjórfalt hærri en uppsjávarskipa segir í ritgerðinni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.