Ekki er vitað hvort Mohammed Bin Khalifa Al-Thani fursti frá Katar tapaði fjármunum á hruni Kaupþings eða hreinlega slapp með skrekkinn.

Í lok september barst tilkynning þess efnis að fjárfestingarfélag í hans eigu hefði keypt 37,1 milljón bréfa í bankanum fyrir 25,6 milljarða króna, eða sem nemur 5,01% hlutafjár.

Með kaupunum varð hann einn stærsti hluthafinn í Kaupþingi, sem nú hefur verið þjóðnýtt.

Samkvæmt lista yfir hluthafa Kaupþings, sem sóttur var í gegnum Markaðsvakt Mentis, var fjárfestirinn frá Katar fimmti stærsti hluthafi bankans áður en til falls hans kom.

Ef Mohammed hafði þá þegar reitt fram greiðslu vegna hlutarins hefur hann tapað hverri krónu af fjárfestingunni, 25,6 milljörðum króna, á ekki lengri tíma en rúmum tveimur vikum.

Ef greiðslan hafði ekki formlega farið í gegn, er óljóst hvernig málum er háttað en seljandi hlutarins var bankinn sjálfur.