„Ég er nýbúinn að kaupa félagið og þessi niðurstaða er í takt við það sem ég átti von á,“ segir Árni Pétur Jónsson, eigandi Rekstrarfélags Tíu-ellefu ehf. Eins og nafnið gefur til kynna heldur félagið um rekstur verslana 10-11 og var 16,8 milljóna tap á rekstrinum á árinu 2011 samkvæmt ársreikningi. Söluhagnaður nam tæplega 1,4 milljónum króna á tímabilinu. Eignir félagsins nema rúmlega 761 milljón króna og skuldirnar rúmlega 441 milljón króna.

„Við höfum bæði lokað búðum og opnað nýjar,“ segir Árni um þær breytingar sem gera á til að snúa rekstrinum við. „Ég vissi að ég væri að taka við félagi sem þyrfti að byggja upp aftur,“ bætir hann við. Það er félagið Basko ehf. sem á 100% hlut í verslununum og er Basko í eigu Árna Péturs.