Tap varð af rekstri Flögu Group á fyrstu níu mánuðum ársins og nam það 206 þúsund bandaríkjadölum eða 13 milljónum króna samanborið við tap að upphæð 465 þúsund dölum fyrir fyrra ár. Tekjur á þriðja ársfjórðungi námu 8,9 milljónum dala sem er 10% aukning frá sama tímabili ársins 2004, og er það í takt við væntingar.

Framlegð rekstrartekna var 62%, samanborið við 60% árið á undan. Rannsóknar- og þróunarkostnaður er allur gjaldfærður og nam 793 þúsund dölum eða 9% af tekjum á þriðja ársfjórðungi 2005, samanborið við 885 þúsund dali eða 11% af tekjum þriðja ársfjórðungs 2004.

EBITDA framlegð nam USD 1,7 milljónum eða 19% en var USD 915 þúsund eða 11% á þriðja ársfjórðungi 2004. Hagnaður eftir skatta nam USD 824 þúsundum á ársfjórðungnum í samanburði við USD 390 þúsund fyrir sama tímabil fyrra árs.

Tekjur fyrstu níu mánuði ársins námu USD 25,8 milljónum í samanburði við USD 17,9 milljónir fyrir sama tímabil 2004. Tekjuaukning tímabilsins var USD 7,9 milljónir eða 44% og innri vöxtur var 17%.

Framlegð rekstrartekna var 62%, samanborið við 60% árið á undan. Rannsóknar- og þróunarkostnaður nam USD 2,9 milljónum eða 11% af tekjum á fyrstu níu mánuðum ársins. Sambærilegar tölur fyrir sama tímabil fyrra árs eru USD 2,6 milljónir eða 15% af tekjum.

EBITDA framlegð fyrstu níu mánuði ársins var USD 1,7 milljónir en var USD 70 þúsund fyrir sama tímabil 2004. Tap eftir skatta fyrstu níu mánuði ársins nam USD 206 þúsund samanborið við tap að upphæð USD 465 þúsund fyrir fyrra ár.