Tap samstæðu Sláturfélags Suðurlands á tímabilinu janúar til mars 2005 var 19,2 mkr. Á sama tímabili árið áður var 94,4 mkr. tap. Eigið fé Sláturfélagsins er rúmar 1.200 mkr. og eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 34%. Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 987 mkr. á fyrstu þremur mánuðum ársins 2005, en 993 mkr. á sama tíma árið áður og lækka því um tæplega 1%.

Launakostnaður, annar rekstrarkostnaður og afskriftir lækka um 5%. Rekstrartap án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 28 milljónir, en 62 milljónir króna árið áður.

Fjármunatekjur umfram fjármagnsgjöld voru 5 mkr., en fjármagnsgjöld umfram fjármagnstekjur voru 33 mkr. árið áður. Gengishagnaður nam 24 mkr. samanborið við 17 mkr. gengistap á sama tímabili í fyrra. Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var neikvæð um 4 mkr. en árið áður um 2 mkr. Að teknu tilliti til 8 mkr. hlutdeildar minnihluta í afkomu var tap af rekstri tímabilsins 19,2 mkr. en 94,4 mkr. tap á sama tíma árið áður.

Veltufé frá rekstri var 9 mkr. á fyrstu þremur mánuðum ársins 2005, samanborið við 36 mkr. til rekstrar fyrir sama tímabil árið 2004.

Heildareignir Sláturfélagsins 31. mars voru 3.524 mkr. og eiginfjárhlutfall 34%. Veltufjárhlutfall var 1,8 í lok mars 2005, en 1,3 árið áður.

Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í apríl s.l. var í maímánuði greiddur 13,91% arður af B-deild stofnsjóðs alls 28 mkr. og reiknaðir 6% vextir á A-deild stofnsjóðs alls 12 mkr.